lgn.is - 27.10.2015 Verðendurskoðun lyfjagreiðslunefndar lækkar lyfjakostnað um 773 milljónir kr. á ári
Hafðu samband

LYFJASTOFNUN

Vínlandsleið 14, 113 Reykjavík

Sími 520 2100

Netfang: [email protected]


 

 

27.10.2015 Verðendurskoðun lyfjagreiðslunefndar lækkar lyfjakostnað um 773 milljónir kr. á ári
27.10.2015 - 27.10.2015 Verðendurskoðun lyfjagreiðslunefndar lækkar lyfjakostnað um 773 milljónir kr. á ári

Lyfjagreiðslunefnd hefur nýlokið við framkvæmd verðendurskoðunar á öllum lyfseðilsskyldum lyfjum í lyfjaverðskrá eða samtals 2.985 vörunúmerum. Áætlað er að verðendurskoðunin lækki lyfjakostnaðinn um 773 milljónir kr. á ársgrundvelli sem skiptist á milli sjúkratrygginga og sjúklinga.

Nefndinni er ætlað skv. 7. gr. reglugerðar um lyfjagreiðslunefnd nr. 353/2013 að framkvæma reglulega verðendurskoðun og ekki sjaldnar en á tveggja ára fresti. Lyfjaverð á Íslandi er borið saman við lyfjaverð í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð. Verðsamanburður á almennum lyfjum byggist á meðalverði í viðmiðunarlöndunum fjórum en á sjúkrahúslyfjum er tekið mið af lægsta verðinu í sömu löndum.

Verðlækkanir í kjölfar verðendurskoðunar lyfjagreiðslunefndar á sjúkrahúslyfjum tóku gildi 1. apríl s.l. Áætlað er að lyfjakostnaður sjúkratrygginga lækki við það um 186 milljónir kr. á ársgrundvelli.

Verðendurskoðun á  almennum lyfjum var skipt í tvo áfanga, verðlækkanir vegna fyrri áfangans tóku gildi 1. júní s.l. og vegna seinni áfangans þann 1. október s.l. Áætlað er að lyfjakostnaður muni lækka vegna fyrri áfangans um 273 milljónir kr. og vegna seinni áfangans um 314 milljónir kr. á ársgrundvelli. Kostnaður mun því lækka vegna almennra lyfja um samtals 587 milljónir kr., sem skiptist á milli sjúkratrygginga og sjúklinga.

Allar upphæðir miðast við heildsöluverð með virðisaukaskatti.

Lyfjagreiðslunefnd þakkar gott samstarf við lyfjafyrirtæki í landinu til að ná fram þessum sparnaði bæði fyrir ríki og sjúklinga.